Mánudagur, 16. júní 2008
Sleppitúr á merinni minni á laugardaginn.
Ég fór í "sleppitúr" á merinni minni á laugardaginn. Förinni var heitið í Víðines sem er í Mosfellsbæ. Í stað þess að ríða meðfram Vesturlandsveginum ákvað ég að fara Almannadal þótt sú leið sé lengri. Hafði heyrt að þessi leið væri mjög skemmtileg og reiðvegur alla leiðina.
Ég ætlaði að reyna að hitta á manninn sem býr á Víðinesi en hann var að koma ríðandi frá Hafnarfirði ásamt fleirum. Ætlaði svo að vera í samfloti að Víðinesi. Ég hitti svo reyndar aldrei á hann. Leiðin var falleg, engin bílaumferð, gott veður og sumarlykt í lofti. Ég var ekki alveg nógu klár á leiðinni , varð einu sinni að snúa við og einu sinni að spyrja til vegar en þetta hófst.
Hitti agalega skemmtillegt fólk sem var á leiðinni á hestum að Laxnesi og var samferða þeim góðan hluta leiðarinnar. Ég fór reyndar allt of langt, fór yfir Skammadalinn og þá kom ég niður á Þingvallaveginn. Merin mín var orðin voðalega þreytt og mér var kalt þegar þarna var komið enda farið að kólna og klukkan orðin átta um kvöld. Reið sem leið lá undir brú á Vesturlandsvegi og sá þar mann á hestbaki sem ég spurði hvar best væri að fara yfir Leirurnar. Hann leit á mig og spurði" hvað heitir þú"? Ég hugsaði '" jæja, hvað hef ég gert núna" ..haha en svaraði spurningunni. "já" sagði maðurinn þá, "ég hélt það, blessuð Axel frændi þinn hér"! Þá var þetta hann Axel frændi af öllum! Ég skammaðist mín niður í tær fyrir að hafa ekki þekkt hann en afsakaði mig með því að ég væri þreytt með ryk í augunum .
Axel sagðist nú aldrei hafa farið yfir Leirurnar en sýndi mér hvar áin lá og hvar venjulega væri farið yfir. En þar sem að var að fjara út þá var ekki hægt að fara þar yfir því sjórinn var það mikill. Ég kvaddi svo Axel og reyndi að finna þægilegustu leiðina yfir. Mér stóð nú samt ekki alveg á sama þar sem ég vissi ekkert hvað áin var djúp eða hvernig leiðin lægi. Því var ég mikið fegin þegar að við Ótta komust yfir í fjöruna hinum meginn. Reið svo meðfram fjörunni í sandi og stórgrýti og svo þegar ég var að ríða á sandinum þá dettur merin niður! Svo fór hún í rólegheitum að velta sér með mig á baki! Hún hafði þá ekki dottið heldur lagst niður - alveg búin greyið. Ég kom mér á fætur og togaði merina upp, og gekk síðasta spölinn að útihúsunum. Gat ekki lagt meira á Óttu greyið. Ég hef nú aldrei lent í því fyrr að hestur hendi sér niður með mig á baki og fari að velta sér í rólegheitunum.
En þótt ferðin hafi verið skemmtileg þá var ég mikið fegin að komast upp í Víðines þar sem Danni strákurinn minn beið eftir mér. Ég var köld, svöng og þyrst og dauðþreytt og hvað má þá segja um merina. Við höfðum verið fjóran og hálfan tíma á leiðinni. Ég held að hún hafi verið mikið fegin að komast í hagann, hún fékk að sjálfsögðu nammi fyrir dugnaðinn og henni var klappað hátt og lágt.
Ég skrapp svo að líta á hana í gær - sunnudag og henni leið stórvel innan um hin hrossinn og japlaði vel á rúgbrauðinu sem ég kom með handa henni. Tók nokkrar myndir á símann minn sem ég set inn síðar :).
Athugasemdir
Skemmtileg en hálfgerð svaðilför hjá þér sem endaði vel.Findið með frænda þinn .....það er gott að vera með aulahúmor til að afsaka sig á svona stundum
Solla Guðjóns, 16.6.2008 kl. 11:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.