Færsluflokkur: Heilsurækt

Hvernig er best að brenna fitu?

Góð heilsa Margir hamast á hlaupabrettinu með púlsinn í hámarki  í þeim tilgangi að brenna fitu en átta sig ekki á því að það er kolröng leið til að brenna fitu. Ætla að fjalla aðeins um brennslu í þessu innleggi. 

 Það eru skiptar skoðanir á því hvort best sé að æfa á morgnanna á fastandi maga eða ekki.  Kenningin er sú að þegar æft  er á fastandi maga þá hefur líkaminn enga aðra orku að vinna úr nema  fituna og nýtir hana sem orkugjafa. 

Gæti verið.   En mjög margir eiga erfitt með að æfa á fastandi maga.   Þá er gott að fá sér smá kolvetni fyrir æfinguna, banana td. 

Ef æfingin er erfið , þungar lyftingar td. þá er ekki gott að vera ekkert búin að borða.  ALLS EKKI.   Ég hef séð fólk hrynja niður í ræktinni af því að það hefur ekki borðað neitt fyrir æfinguna.  Hætta á blóðsykurfalli, yfirliði auk þess sem orkan er minni en ella og því fer æfingin oft forgörðum.  

Brennsla á fastandi maga er í lagi fyrir fólk sem þolir það.   En svo þarf líka að gera sér grein fyrir því að allt er þetta spurning um input-output ... hitaeiningar sem þú innbyrðir daglega og hversu mörgum hitaeiningum þú eyðir ( hreyfing ) 

Brennsla :

Við brennum fitu í súrefni svo við verðum að passa það að púlsinn sé frekar lágur.  Já það er nefnilega málið!  Ekki eins og margir halda, því meira álag því meiri brennsla = Rangt .  Ef við erum í miklu álagi þar sem við fáum lítið súrefni þá brennum við kolvetnum.  Líkaminn getur ekki notað fituna sem orkugjafa ef súrefni skortir.    65% af hámarkspúls er flott að miða við.     Hámarkspúls : 220- lífaldur.  Ef enginn púlsmælir er til staðar þá er gott að miða við að við eigum að geta haldið uppi samræðum við næsta mann.  Eða vera við mörk þess að mæðast.    Eftir því sem brennslan er lengur því árangurríkari er hún.  40-60 mínútur er glæsilegur tími. 

 En hafa ber í huga að ALLTAF skal huga að líkamsástandi sínu, við erum ekki öll í sama forminu.   Byrja rólega og auka svo tímann smá saman þegar þolið hefur aukist og formið verður betra.   Ágætt er fyrir byrjanda að byrja á 10 mín. rólegri göngu.

Ef þú stundar enga hreyfingu skaltu reyna að ná hálftíma göngutúr á hverjum degi. Það munar svo sannarlega um það.   Fyrir þá sem eru að æfa ( lyfta) er gott að taka hálftíma brennslu eftir æfinguna.  Og hafa tvær auka brennsluæfingar tvisvar í viku ( 40-60 mín)

Það sem ég hef fjallað um hér er brennsla, en ef við ætlum okkur að auka þolið þá eru margar aðferðir til þess. Þol er í raun undirstaða fyrir góða heilsu. Þol má skilgreina sem viðnámsþrótt líkamans gegn þreytu. En það ætla ég að fjalla um síðar.     Smile


Líkamsrækt og heilbrigði

Man ég þá tíð er ég var að æfa í líkamsræktarstöðum eins og Gym 80 og fleirum sem ég man ekki einu sinni nafnið á.  Þetta var fyrir um ..*hugs*..20 - 25 árum síðan ( VÁ) .  Ég var lítil og mjó písl, jú ég var svo sem með ágæta líkamsburði þar sem ég hafði æft íþróttir frá því ég var ellefu ára gömul en  samt sem áður var ég lítil og mjó písl miða við þá risavöxnu menn sem voru að æfa á þeim tíma. Stæltur Þegar ég hugsa til baka þá man ég ekki eftir neinni konuBodyfitness nema - Möggu massa , fyrir utan hana þá man ég aðalega eftir stórum og breiðum - hálslausum kraftlyftingamönnum  sem heyrðist hátt í þegar þeir lyftu níðþungri bekkpressunni eða tóku gífurlega þyngdir í réttstöðulyftu.   

Þvílík breyting sem hefur orðið á.  Í dag er öll mannsflóran í likamsrækt, frægir sem ófrægir, stórir sem litlir , ungir sem gamlir, meira að segja afinn og amman taka á því!    Flestir mæta í ræktina 3-5 sinnum i viku, sumir á hverjum degi og þó nokkrir tvisvar á dag. Frábært er að sjá hversu margir hafa gert heilsuræktina að lífstíl.  Sumir eru að stefna að eitthverju sérstöku takmarki, td. að keppa í Fitness, aðrir eru að keppa við sjálfan sig, setja sér takmörk um að ná ákveðnu markmiði.   Hvort tveggja er gott og gilt.  

 Styrktaræfingar styrkja bein, vöðva, bæta líkamsstöðu, eru vaxtamótandi.  Hollt og gott er að stunda  þessa íþrótt.   Persónulega finnst mér fallegri - tónaðir sterkir kvenlíkamanar þar sem vöðvar koma vel í ljós.  Þó má það ekki ganga út í öfgar.  Og sama gildir um karllíkama.   

út að hlaupa Ekki má svo gleyma þolæfingunum, sem styrkja hjarta og lungu.  Hver vill ekki betra þol, stærra hjarta og því mögulega lengri lífdaga.   Ganga og hlaup utandyra eru auðvitað það albesta, en þegar að veður er vont er gott að grípa til þeirra þoltækja sem líkamsræktarstöðin bíður upp á. 

Lifið heil Grin


Regnhlíf í hurðinni!

Var að kaupa nýjan bíl.  Skoda Superb 2003 , steingrár með áli allan hringinn, (eitthvað kítti ) Ál á pústinu, vindskeið framan og aftan ..en bíðið...þetta er ekkert á við hvernig hann er að innan! Það er hægt að setja niður borð í aftursætinu og þar er pláss fyrir glös.  Bak við borðið er hægt að opna lúgu og þar dregur maður fram skíðapoka.  Í einni hurðinni er hólf sem ég opnaði og dró út fínustu regnhlíf merkt Skoda!   Það er ljós í öllum hurðum og svo þegar maður stígur út úr bílnum þá kviknar "útstiguljós" svo maður sjái betur hvar maður stígur niður, fínt í myrkri.  Ekki það að ég hafi ekki getað verið án þess en þetta er stórsniðugt.  Svo eru allskonar hólf hér og þar í bílnum, á eftir að skoða það betur. Já og LOFTÆLING...geggjað! 

Tékkar ( Hann er frá Tékklandi) eru víst svo stoltir af Skodanum sínum að þeir vilja hafa hann fullkominn, engu til sparað og hugsað fyrir öllu. 

Það eina sem ég get sett út á hann eru græjurnar.  Þær eru ekki nógu góðar.  Vantar meiri kraft og bassa.  Gráni á tíma í ísetningu á nýjum hátölurum á föstudaginn..mikið rosalega verður hann fullkominn þá.


Siglt um sundin blá..

Fitness-keppandi

Áður en ég byrja þessa bloggfærslu, langar mig að taka það fram að myndin sem tengist færslunni er EKKI af mér :)). Laugardagur ..og ég vaknaði klukkan átta til að fara á æfingu. Haldið að það sé rugl :).  En ég er orðin háð æfingunum svona eins og fólk verður háð því að hlaupa. Ég mætti nú samt ekki fyrr en hálfellefu niðrí World Class..var svo værukær eitthvað.   Tók Brjóst og þríhöfða í dag ásamt 150 kviðæfingum.  Tek alltaf kviðæfingar eftir hverja æfingu og reyni að hafa þær fjölbreyttar.

 Þegar ég var í bekkpressunni að hvíla og var að fara að byrja á fjórða og síðasta settinu , þá var ég kölluð upp í kallkerfinu.  Ég rölti mér fram í afgreiðslu og haldið ekki að hún Sara mín kæra vinkona hafi staðið þar með fangið fullt af nammi!  Hún er nýkomin frá London og keypti handa mér nammi í fríhöfninni þessi elska.  Þetta verður að sjálfsögðu laugardagsnammið..ég er nefnilega algjör nammifíkill og verð að reyna að hemja mig og halda mig við laugardagana.  Ætla ekki að sleppa nammideginum, frekar að rugla aðeins líkaman ( sem fær sjokk þegar að óhollustan kemur eins og skrattinn úr sauðaleggnum, og setur þá vonandi brennsluna alveg á fullt :).  Ég held ég eigi inni einn sukkdag í viku, þar sem ég er rosalega dugleg í hollu mataræði, sex daga vikunnar.

Dagurinn í dag var mjög góður.  Við Olli litli skruppum niður í bæ, fórum í kolaportið, svo röltum við um á hafnarbakkanum, fórum og skoðuðum varðskip, það var gaman að fá að kíkja inn í það , fórum meira að segja niður í vélarsalinn.  

Síðan ákvað ég að kíkja einn rúnt með Sæbjörgunni, skipi  slysavarnarfélagsins. Keypti vöffu og appelsín um borð fyrir Olla og svo stóðum við uppi á þilfari á meðan Sæbjörgin sigldi um sundin blá.  Það var rosalega gaman og Olli skemmti sér ekkert smá vel.

Fórum upp í brúnna og Olli horfði út um gluggann hjá stýrimanninum og allt í einu segir hann " vá við erum alveg að koma til spánar" !  .....hahahahahahaha..ég sprakk úr hlátri og sá að fleiri áttu bágt með sig.   

Ætla Esjuna á morgun ef veður leyfir, annars verður brunað niður í Laugar :).  


Fitness-dagbók

pull_ups.jpg

Datt allt í einu í hug að það væri sniðugt að skrifa fitness-dagbók þar sem ég er byrjuð á fitnessprógrammi.   Ég stefni sem sagt á Fitness í haust.  Hef aldrei áður tekið þátt í því og það er ekki seinna að vænna þar sem ég er að verða fertug í haust.  Það er annað hvort að duga eða drepast ekki satt ;).   Arnar Grant sem er margfaldur íslandsmeistari í Fitness , var svo elskulegur að gera fyrir mig lyftingarprógram.  Einnig sendi hann mér upplýsingar um hvernig matseðillinn á að vera til þess að allt gangi upp.

Lyftingarprógrammið er fjórskipt.  Ég er búin að fara tvisvar yfir það , æfi sex daga vikunnar.  Tók strax á mataræðinu og fituprósentan hefur strax lækkað um 2 % skv. rafleiðnifitumælingartækinu (úff langt orð).  Ég finn að ég er að breytast, vigtin stendur í stað , er meira að segja nærri kíló þyngri sem er mjög eðlilegt þar sem ég er að taka miklar þyngdir og stækka vöðvana.  Vöðvar eru jú um helmingi þyngri en fita en þeir taka líka helmingi minna pláss.  

Tók æfingu í morgun fyrir axlir og Trappa ( vöðvar efst á baki, nálægt öxlum).  Æfingarnar taka alveg einn og  hálfan til tvo tíma  í hvert skipti.   Tek æfingu á morgun fyrir brjóst og þríhöfða, hvíli á laugardaginn og geng esjuna á sunnudag.   Nóg um þetta í bili :).


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband