Föstudagur, 15. júní 2007
Benni að meika það..
Frábært hjá Benedikt Erlingssyni! Hann fór heim með þrjár styttur í kvöld! Sigurvegari kvöldsins. Æðislegt! Enda stórkostlegur listamaður.
Ég þekkti Benna þegar hann var fjórtán ára stráklingur "í hestunum" ..stórskemmtilegur strákur og hefur lítið breyst. Þó var hann lægri í loftinu í þá daga, hafði meira hár og röddin var mjórri.
Erlingur Benediktsson var æðislegur, mikið er karlinn skemmtilegur, sonurinn á ekki langt að sækja það. Það var stórgaman að horfa á Grímuna, mjög vel heppnað og létt yfir.
Óska öllum til hamingju sem stóðu að Grímunni og einnig óska ég öllum þeim listamönnum sem unnu til verðlauna innilega til hamingju.
Benedikt Erlingsson var sigurvegari Grímunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 15. júní 2007
Kíktu á stjörnuspánna þína..hahaha...
Hrútur (20. mars - 20. apríl): Þú ert óþolinmóður og fljótfær egóisti, góður að lofa öllu fögru, en fljótur að gefast upp
og láta aðra þrífa upp skítinn. Þú ert keppnismaður og sérlega klár í að keppa við ranga aðila og slá tilgangslaus högg útí loftið.
Þú ert kvikindi, en það hjálpar hversu einlægur, barnalegur og einfaldur þú ert.
Naut (20. apríl - 21. maí): Þú ert latur og þrjóskur, enda löngu staðnaður og fastur í sama farinu. Peningar og þægindi
eru það eina sem þú hugsar um, enda háður nautnum, mat, sykri og skynörvandi efnum. Þú hreyfist ekki úr stað og selur
sannfæringu þína hæstbjóðenda. Þú ert lítið betri en stífluð rotþró.
Tvíburi (21. maí - 20. júní): Þú ert eirðarlaus og yfirborðslegur, alltaf á hlaupum frá einu tilgangslausu verkefni í annað,
með hundrað ókláruð járn í eldinum. Þú ert sí ljúgandi, enda sérfræðingur í að gefa loforð sem þú getur ekki staðið við.
Vissulega ertu vel gefinn, en þú sóar hæfileikum þínum í blaður og óþarfa.
Krabbi (21. júní - 23. júlí): Þú þykist vera töff, en ert í raun aumingi og tilfinningasósa, og getur ekki talað og tjáð þig,
nema með því að væla og kvarta. Þú ert fastur í fortíðinni og munt því fyrr en síðar kafna í drasli og gömlum minningum.
Þegar þú reiðist þá fer allt í einn graut og upp blossar grimmd og hefnigirni. En svona dags daglega þá ertu fúll, þunglyndur
og sjálfsvorkunnsamur.
Ljón (22. júlí - 23. ágúst): Þú ert eigingjarn og of upptekinn af eigin málum til að hafa áhuga á öðrum. Þú veist allt
og hlustar ekki eða öskrar á andmælendur þína. Þú ert svo barnalegur, einlægur og trúgjarn, að það er augljóst að þú
hefur aldrei fullorðnast. Þú ert latur, en þegar þú gerir eitthvað, þá gengur þú of langt.
Meyja (23. ágúst - 23. september): Þú ert einn leiðinlegasti maður í heimi, alltaf að kvarta, gagnrýna og skipta þér af fólki,
en segir aldrei neitt sem gagnast öðrum. Þú ert alltaf á hlaupum, þykist vera duglegur, en gerir aldrei neitt af viti, ekki frekar
en stormur í tebolla. Þú ert stressuð taugahrúga.
Vog (23. september - 22. október): Þú þykist vera ljúfur og vingjarnlegur, en ert í raun falskur og eigingjarn, brosir framan
í fólk, en lýgur og ferð bakvið aðra. Það tekur þig óratíma að taka ákvaðanir, en þegar það loksins gerist, ertu óhagganlegur,
enda of latur til að hugsa málin aftur og of upptekinn af því að smjaðra fyrir öðrum.
Sporðdreki (23. október - 21. nóvember): Þú ert frekur og valdasjúkur, færð einstök mál á heilann (þráhyggja) og ert því
einhæfur og hundleiðinlegur. Þú ert ímyndunarveikur og tortrygginn, móðgast útaf engu og gerir úlfalda úr mýflugu. Lífið er
annað hvort frábært eða ómögulegt. Þú ert eins og biluð plata, stöðugt að spila sama lagið.
Bogmaður (22. nóvember - 21. desember): Þú ert týpan sem grautar í öllu, en kann ekkert, enda alltaf á hlaupum úr
einu í annað. Þú átt erfitt með að þekkja takmörk þín, ert agalaus, flýrð óþægindi og veist ekki hvernig þú átt að nýta hæfileika
þína. Ef þú nærð tökum á einhverju, þá hleypur þú í verkefni sem þú ræður ekki við.
Steingeit (21. desember - 20. janúar): Þú ert stífur og vansæll vinnualki, fastur í tilgangslausum siðum og reglum,
alltaf að skipta þér af öðrum og segja þeim að gera það sem þú getur ekki gert sjálfur. Þú ert snobbaður og þráir stöðutákn,
enda með minnimáttarkennd sem þú heldur að hægt sé að breiða yfir með titlum og merkjavöru.
Vatnsberi (20. janúar - 19. febrúar): Þú ert sérvitur og skrýtinn, og alltaf svo langt á undan samtímanum að enginn skilur þig
eða getur notað hugmyndir þínar. Vissulega ertu svalur, en þú ert svo sjálfstæður, ópersónulegur og hræddur við raunverulegan
innileika, að þú ert í raun alltaf einn, frosinn í einskis manns landi. Týndur á skýi í háloftunum.
Fiskur (19. febrúar - 20. mars): Þú ert rugluð og týnd sál og hefur ekki hugmynd um hvernig þú átt að nýta hæfileika þína eða
í hvaða átt þú átt að fara. Þú vilt vera alls staðar og upplifa allt. En þar sem þetta er ómögulegt, þá fer allt í vitleysu. En það gerir
ekkert til, þú ert sérfræðingur í sjálfsblekkingum og því að flýja raunveruleikann.
Þori varla að segja í hvaða merki ég er - þetta passar svo svakalega vel við mig ..híhí! Jú okey..er bogmaður.... Einhverjir fleiri sem fundu sig þarna?????
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 15. júní 2007
Er þessi vísbending sönn?
Það er ómögulegt að setja sig í spor foreldra Madeleine. Gæsahúðin og hrollurinn sem maður fær við tilhugsunina um að barninu manns sé stolið er eflaust bara lítið brot af þeim hryllingi sem foreldrar Madeleine eru að upplifa.
Ég get ekki ímyndað mér hvort foreldrarnir óski þess að hún finnist látin á þessum stað sem vísað er á svo þeir alla vega viti hvar hún er niðurkomin eða hvort foreldrarnir vonist til að þetta sé falsvísbending. Þetta er hræðilegt mál og því miður alls ekki einsdæmi.
Portúgalska lögreglan lokar af svæði þar sem Madeleine er leitað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 13. júní 2007
Ég tek ofan fyrir þessari konu!
Gengið var um 600 km yfir grænlandsjökul. Þvílíkt afrek! Marta er einstæð móðir sem greindist með illkynja brjóstakrabbamein en eftir að hafa lokið erfiðri meðferð þá ákvað hún að ganga til styrktar krabbameinsfélags Íslands. Markmið ferðarinnar var að safna fé til rannsókna á brjóstakrabbameini og vekja konur til umhusunar um mikilvægi þess að fara reglulega í skoðun.
Þetta vekur mig alla vega til umhugsunar..og ætla ég nú að panta mér tíma í skoðun og hvet ég aðrar konur sem hafa látið það dragast að fara í skoðun að gera það líka.
Marta Guðmundsdóttir kemur til Reykjavíkur í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 12. júní 2007
Úr óþekku stelpunni í þá góðu
Segið svo að fangelsisvistin sé henni ekki til góðs. Ja nema þetta séu "látalæti". Hún má þó búast við því að fá minna umtal fyrir vikið. Heimurinn hefur ekki eins mikinn áhuga á góðverkum og strákapörum.
Paris Hilton á svo smátt og smátt eftir að "hverfa" úr sviðsljósinu og eftir nokkur ár man enginn eftir henni. En hvað skiptir það máli.
París segist ætla að hætta heimskupörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 11. júní 2007
Sumir geta bara ekki flogið...
...sama hvað þeir reyna! Ég hef sjálf reynt þetta .. en mér tókst aldrei að fá bílinn til að fljúga. *hóst* stundum veit ég ekki hvort blaðamenn mbl. eru að reyna að vera fyndnir, tvíræðir eða einfaldlega allt of oft klaufalegt orðalag?
Ökumaður á ofsahraða reyndi að ná flugi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 11. júní 2007
Útskrift og veisla...
Jæja gott fólk! Nóg búið að vera að gera, er hálfslöpp að blogga en kannski verður maður bara svona á þessum árstíma. Útskrifaðist sem ÍAK einkaþjálfari sl. laugardag. Útskriftin var haldin með viðhöfn í Íþróttaakademíunni Keflavík, snittur og herlegheit. Þetta var ægilega gaman og mikil stemning.
Ég var ekki með neitt útskriftarboð (enda búin að halda upp á próflokin) en fékk þrjá blómvendi og svakalega fallegan módelhring frá foreldrum mínum. Svo á víst ein gjöf eftir að koma.
Á laugardagskvöldinu var okkur svo boðið í grillútskriftarveislu til Kalla og Önnu mágkonu. Anna var nefnilega að útskrifast sem tölvunarfræðingur úr HR. Í yndislegu veðri í garðinum stóðu Kalli og Jón Pétur ( danskennari og nágranni) og grilluðu á þremur grillum. Þvílíkur dásemdarmatur..grillaðar nautalundir, kjúklingabringur, svínasteik, fylltir tómatar, grillaðar kartöflur, æðislegt salat..ofl. ofl. Ég vildi vera eiturhress á sunnudeginum svo við drifum okkur heima rúmlega tólf á miðnætti.
"Vaknaði líka hálfátta á sunnudagsmorgninum og fór í göngutúr með hundinn "
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 7. júní 2007
Sjáið nýja kærasta Jennifer Aniston
Snoppufríður náungi nýji kærastinn hennar Aniston . 36 ára gamall ef ég man rétt. Voðalega er ég fegin að vera ekki fræg og fá að hafa einkalíf mitt í friði. Einkalífið er þó ansi djúsí stundum en fréttamiðlar fara því miður á mis við það .
Hulunni svipt af nýjum kærasta Aniston | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 4. júní 2007
Hvernig er best að brenna fitu?
Margir hamast á hlaupabrettinu með púlsinn í hámarki í þeim tilgangi að brenna fitu en átta sig ekki á því að það er kolröng leið til að brenna fitu. Ætla að fjalla aðeins um brennslu í þessu innleggi.
Það eru skiptar skoðanir á því hvort best sé að æfa á morgnanna á fastandi maga eða ekki. Kenningin er sú að þegar æft er á fastandi maga þá hefur líkaminn enga aðra orku að vinna úr nema fituna og nýtir hana sem orkugjafa.
Gæti verið. En mjög margir eiga erfitt með að æfa á fastandi maga. Þá er gott að fá sér smá kolvetni fyrir æfinguna, banana td.
Ef æfingin er erfið , þungar lyftingar td. þá er ekki gott að vera ekkert búin að borða. ALLS EKKI. Ég hef séð fólk hrynja niður í ræktinni af því að það hefur ekki borðað neitt fyrir æfinguna. Hætta á blóðsykurfalli, yfirliði auk þess sem orkan er minni en ella og því fer æfingin oft forgörðum.
Brennsla á fastandi maga er í lagi fyrir fólk sem þolir það. En svo þarf líka að gera sér grein fyrir því að allt er þetta spurning um input-output ... hitaeiningar sem þú innbyrðir daglega og hversu mörgum hitaeiningum þú eyðir ( hreyfing )
Brennsla :
Við brennum fitu í súrefni svo við verðum að passa það að púlsinn sé frekar lágur. Já það er nefnilega málið! Ekki eins og margir halda, því meira álag því meiri brennsla = Rangt . Ef við erum í miklu álagi þar sem við fáum lítið súrefni þá brennum við kolvetnum. Líkaminn getur ekki notað fituna sem orkugjafa ef súrefni skortir. 65% af hámarkspúls er flott að miða við. Hámarkspúls : 220- lífaldur. Ef enginn púlsmælir er til staðar þá er gott að miða við að við eigum að geta haldið uppi samræðum við næsta mann. Eða vera við mörk þess að mæðast. Eftir því sem brennslan er lengur því árangurríkari er hún. 40-60 mínútur er glæsilegur tími.
En hafa ber í huga að ALLTAF skal huga að líkamsástandi sínu, við erum ekki öll í sama forminu. Byrja rólega og auka svo tímann smá saman þegar þolið hefur aukist og formið verður betra. Ágætt er fyrir byrjanda að byrja á 10 mín. rólegri göngu.
Ef þú stundar enga hreyfingu skaltu reyna að ná hálftíma göngutúr á hverjum degi. Það munar svo sannarlega um það. Fyrir þá sem eru að æfa ( lyfta) er gott að taka hálftíma brennslu eftir æfinguna. Og hafa tvær auka brennsluæfingar tvisvar í viku ( 40-60 mín)
Það sem ég hef fjallað um hér er brennsla, en ef við ætlum okkur að auka þolið þá eru margar aðferðir til þess. Þol er í raun undirstaða fyrir góða heilsu. Þol má skilgreina sem viðnámsþrótt líkamans gegn þreytu. En það ætla ég að fjalla um síðar.
Heilsurækt | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Sunnudagur, 3. júní 2007
Hryllilegt að vita af svona fólki undir stýri!
Það eru margir óábyrgir ökumenn í umferðinni. Það geta því miður allir lent í því að vera í sunnudagsbíltúr með fjölskyldunni og átt sér einskins ills von og mætt einum slíkum. Og bíltúrinn sem átti að vera svo notarlegur með fjölskyldunni endar svo upp á slysadeild.
Ég hef einu sinni verið tekin fyrir of hraðan akstur. Það var á Nýbýlaveginum árið 1988. Þá var ég tekin á 70 km. hraða þar sem var 50 km. hámarkshraði. Er ekkert stolt af því en það hefði getað verið verra. Ég er nú samt að ekki að segja að ég sé einhver engill í umferðinni , síður en svo. Ég hef átt mína spretti, sérstaklega þegar ég var yngri. Elskaði að keyra hratt á tímabili og ögra sjálfri mér. Ég þakka guði fyrir að ekki hlaust slys af.
Ég er hætt þessu núna. Tel mig ábyrgan ökumann í dag. Gott að við búum við ágætis löggæslu, ég er alltaf glöð að heyra þegar að lögreglan nær svona mönnum og tekur þá úr umferð. En því miður getur maður aldrei verið öruggur.
Stöðvaður ökuréttindalaus og undir áhrifum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)