Sunnudagur, 7. janúar 2007
Kattarkonan á Kjalarnesinu, skelfilegt.
Fyrir ellefu árum síðan fór ég með vini mínum í Hafnarfjörð að skoða hóp af kettlingum. Ég valdi litla læðu úr hópnum, mjög fallega þrílita með "skipt í miðju" hálft andlitið grátt og hitt bleikt. Læðan var mjög fjörug og þegar hún var um 7 mánaða gömul þá eignaðist hún fyrstu kettlingana sína. Ég ákvað að eiga einn kettling úr þeim hóp því hann var svo rólegur og yndislegur. Þann kött á ég enn í dag - hann Simba.
Þessi læða átti eftir að eignast fjöldan allan af kettlingum, yfirleitt vildi hún eignast þá upp í rúmi hjá mér og einu sinni tókst henni það ..þá vaknaði ég við eitthvað mjúkt og blautt upp við fæturnar á mér , kíkti og þar var kominn fyrsti kettlingurinn. Læðan mín sem hafði fengið nafnið "Jasmín" ( úr Aladdín) var mjög sérstök og tók ekki hverjum sem er. Hún treysti mér en hún átti það til að klóra fólk sem ætlaði að klappa henni. Og þar á meðal kærasta minn hann Helga sem er maðurinn minn í dag.
Helgi var alltaf óöruggur með Jasmín í kringum sig, óhætt að segja að hann hafi verið hálfskelkaður við köttinn, því aldrei vissi maður hverju hún tæki upp á. Simbi hinsvegar var allt öðruvísi, hann hlammaði sér í fangið á hverjum þeim sem varð fyrir honum og steinsofnaði! Þegar Jasmín var 7 ára þá ákváðum við Helgi að kaupa okkur íbúð saman og hefja búskap. Keyptum íbúð á efstu hæð í fjölbýlishúsi í öðru hverfi. Ég hafði áhyggjur af Jasmín, því hún var mikill útiköttur og á þessum tíma var hún með fjóra kettlinga. Simbi var inniköttur svo það var ekkert vandamál með hann.
Við ákváðum að prófa að auglýsa eftir góðu fólki sem gæti tekið Jasmín að sér. Ég var mjög svartsýn á að það gengi en fljótlega eftir að ég auglýsti þá hringdi kona í mig sem sagðist hafa séð myndina af Jasmín og hún væri alveg eins og köttur sem hún hefði einu sinni átt og sér langaði mikið til að taka Jasmín að sér. Hún sagðist búa upp í sveit en þó ekki langt frá Reykjavík.
Ég trúði því varla að ég hefði verið svona heppin að fá gott heimili fyrir Jasmín og það upp í sveit! Konan kom svo með tvö börn með sér að ná í Jasmín og hún vildi taka að sér kettlingana líka..ég átti ekki til orð ..og var mjög þakklát. Konan var mjög einlæg og virkaði á mig sem góð manneskja.
Ck. viku seinna var ég stödd rétt hjá þar sem konan bjó og ákvað að kíkja í heimsókn. Enda hafði konan sagt mér að ég mætti koma hvenær sem ég vildi og kíkja á kisu.
Konan bjó í tveggja hæða timburhúsii, rétt upp við Esjurætur. Ég bankaði og eftir smá tíma kom konan til dyra og bauð mér inn. Mér fannst hún hálfflóttaleg og ég hálfsá eftir því að hafa komið án þess að hringja á undan mér. Á móti mér kom lítill sætur köttur en þó ekki kisan mín og konan sagðist hafa fengið sér þennan kött líka, því hún hefði alveg fallið fyrir honum.
Þegar ég kom inn í stofu, sá ég tvo stóra hunda og maður sem hún kynnti sem manninn sinn, lá í sófanum. Ég leit í kringum mig og sé kettlingana og Jasmín sem stóð og hvæsti á hundana. Ég fékk eitthvað slæmt á tilfinninguna, fannst eitthvað furðulegt við þetta heimili en áttaði mig ekki alveg á því hvað það var. Konan sagði að Jasmín liði vel, hún svæfi uppí hjá stelpunni sinni sem dýrkaði köttinn. Ég róaðist aðeins við það.
Síðan ekki söguna meir fyrr en ck. ári seinna en þá er ég að flétta blaðinu og þá sé ég frétt um að fundist hefðu um 36 kettir í húsbíl á Kjalarnesi, sumir dauðir, öðrum varð að lóga og þeir sem voru lifandi voru mjög horaðir og illa haldnir. Þeir höfðu verið fluttir í Kattholt. Mér dauðbrá og ákvað að hringa upp í Kattholt til að fá meiri upplýsingar um þetta mál. Og jú jú það passaði, sú sem átti þennan húsbíl og kettina var einmitt konan sem hafði fengið Jasmín. Ég titraði af reiði og vanmáttarkennd en það var ekkert sem ég gat gert. Ekki svaraði konan símanum...ég reyndi að hringja.
Ég fór hins vegar upp í Kattholt og fékk að sjá kettina sem komið hafði verið með , greyið dýrin, alveg skelfilegt að sjá þau. En Jasmín var ekki ein af þeim. Og ekki kannaðist Sigga í Kattholti við lýsinguna á Jasmín.
Ég get ekki lýst því hvað mér leið illa eftir þetta, að hafa látið köttinn í hendurnar á þessari konu. Mér skilst þó að konan hafi ekki beint verið "vond" við dýrin en eitthvað mjög mikið hafi verið að, og þetta var ekki í fyrsta skipti sem lögreglan hefur haft afskipti af þessari konu og hennar manni varðandi illa meðferð á dýrum.
Síðan eru liðin um 4 ár og ég er ennþá að kíkja á Kattholtssíðuna ef vera skyldi að Jasmín skyldi finnast. Hún ætti að vera um 11 ára ef hún er á lífi en það eru næstum engar líkur á því.
Simbi hefur það alla vega gott , hann er núna á ellefta ári.
Athugasemdir
Hryllileg saga !!!! Vonandi hefur Jasmín stloppið og lifir einhverstaðar í vellystingum.
Kær kveðja Sigrún
Sigrún Friðriksdóttir, 7.1.2007 kl. 21:47
<---- Þegar ég var svona lítill, þá fæddust kettlingar í rúminu mínu... ég elska ketti.
Ég fann fyrir hroll í öllum kroppnum þegar ég las þessa færslu. Vel skrifað en "hryllileg"
Gunnar Helgi Eysteinsson, 7.1.2007 kl. 22:50
Æ Ester mín. Ég á ekki orð en hvað þetta er dapurlegt. Óheppni. Hvernig atti þér að detta í hug að þarna væri eitthvað skrítið á ferð.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 7.1.2007 kl. 23:00
hrollur í æðum
Ólafur fannberg, 7.1.2007 kl. 23:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.