Fimmtudagur, 30. nóvember 2006
Jarðaför afa míns.
Í gær var móðurafi minn kistulagður og jarðaförin fór fram sama dag. Yndisleg jarðaför ef hægt er að orða það svo. Troðfull kirkja því Steini afi var vinamargur. Ég á bágt með mig í jarðaförum, mér nægir að sjá fólk sem mér þykir vænt um gráta, þá fer ég líka að gráta. Eða að heyra fallega tónlist, það nægir til að koma tárunum af stað. Eða hugsa um afa eins og hann var og hvað það er sorglegt að fá ekki að sjá hann aftur í lifanda lífi. Í kistulagningunni braust sólinn allt í einu fram og geislarnir skinu inn um rúðuna. Það gerðist aftur í jarðaförinni, einmitt þegar verið var að spila eitt af fallegu lögunum og vil ég trúa því að þetta sé táknrænt.
Tónlist skipti afa miklu máli. Hann var mjög músíkalskur og spilaði á harmonikku og hljómborð. Hann elskaði falleg lög, og hélt m. a. mikið upp á karlakóra. Í kirkjunni söng Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Bergþór Pálsson, auk karlakórs sem var hreint frábær að hlusta á. Þegar þeir sungu lagið " Drottinn er minn hirðir" þá féll ég saman, þetta er svo fallegt lag og raddirnar voru svo fallegar. Ég og bræður mínir , auk pabba, Robba frænda og þremur öðrum vorum burðarmenn, svo við sátum fremst við kistuna.
Eftir jarðaförðina þá var kaffi og meðlæti í safnaðarheimilinu og þar var sko ekkert skorið við nögl. Mikið hefði afi haft gaman af að hitta allt þetta fólk, vini sína og ættingja. Hann var svo félagslyndur hann afi.
Það var þó létt yfir fólki í kaffinui, afi var léttur karl, mjög lífsglaður maður og hefði hann verið staddur þarna ( hver veit) þá hefði hann verið manna hressastur. Áttatíu og eitt gott ár átti afi og megnið af þeim með henni ömmu, á næsta ári hefðu þau átt demantsbrúðkaup, 60 ára!
Ég mun sakna þín mikið afi minn, þú varst svo mikill karakter.
Drottinn er minn hirðir
Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um réttan veg
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér.
Sproti þinn og stafur huggar mig.
Þú býrð mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi drottins bý ég langa ævi.
Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Athugasemdir
Ester mín ég er búin að segja það en ég endurtek það. Ég samhryggist þér. Þessi grein er svo falleg og ber vitni þess hve vænt þér þótti um hann afa þinn.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 30.11.2006 kl. 23:15
Takk elsku Jórunn mín. Já mér þótti vænt um karlinn og mikið er satt í því að ..enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Ester Júlía, 30.11.2006 kl. 23:51
Takk elsku Jórunn mín. Já mér þótti vænt um karlinn og mikið er satt í því að ..enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Ester Júlía, 30.11.2006 kl. 23:51
Samhryggist. Veit hvernig þér líður.
Villi Asgeirsson, 1.12.2006 kl. 07:07
samhryggist
Ólafur fannberg, 1.12.2006 kl. 08:10
Samhryggist þér dúllan mín
Kv, Katrín Kristófers
Katrín Kristófers (IP-tala skráð) 1.12.2006 kl. 10:52
Ég samhryggist þér innirlega... það er ekki langt síðan kona mín missti afa sin sem var stór maður. Ég skrifaði því þessa sögu, ég mæli með að þú lesir hana... því við trúum á yfirnátturulega hluti
Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.12.2006 kl. 15:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.