Ömurleg lífsreynsla ungrar íslenskrar stúlku í Svíþjóð framh.

depressed girlUnga stúlkan fékk aupair starf hjá annarri fjölskyldu á öðrum stað í Svíþjóð.  Hún hafði kynnt sér þá fjölskyldu vel og virtist allt vera í lagi, þetta var velefnað fólk, þau voru bæði forstjórar í eigin fyrirtækjum, áttu tvær litlar stelpur og bjuggu í flottu einbýlishúsi í útjaðri stórborgar.  

Vinnutími stúlkunnar var frá 08:00-17:00  og frí um helgar. 
Starf hennar var fólgið í því að hugsa um stelpurnar á daginn, þvo barnaföt, sópa gólfið og moppa ef þess þurfti og  hita upp mat í hádeginu fyrir stelpurnar.

Léttari vinna en á fyrri staðnum, styttri vinnutími og launin hærri - 2000 kr. sænskar á mánuði.
Stúlkunni leið betur á þessum stað, þetta var mjög venjuleg fjölskylda sem kom virkilega vel fram við hana.
 
Þegar hún var búin að vera hjá þessari fjölskyldu í ck. fjóra mánuði þá fór hún að veita því athygli að fjölskyldufaðirinn var oft að horfa á hana þegar hann hélt að hún sæi ekki til.  Í eitt skipti þegar stúlkan lá í sólbaði í garðinum, þá kom hann þar að og bað hana um að fara og reka hesta út úr garðinum sem höfðu villst þar inn  á lóðina.

  Stúlkan teygði sig eftir fötunum sínum en maðurinn brást skjótt við og sagði henni EKKI að vera að klæða sig, það væri algjör óþarfi, veðrið væri svo gott og hún yrði fljót að þessu.  Þetta fannst stúlkunni skrýtið og klæddi sig samt í fötin enda kunni hún engan veginn við að hlaupa í garðinum á bikiníi einu fata.

Helgina á eftir þurfti konan að fljúga til Stokkhólms á fund.  Fjölskyldufaðirinn var heima ásamt börnunum og stúlkunni.Herbergi stúlkunnar var á neðri hæðinni en hjónin voru með svefnherbergi uppi.  Það var ekki hægt að læsa herbergi stúlkunnar af eitthverjum ástæðum, líklega hafði lykillinn týnst eða eitthvað.

  Það var því  hægðarleikur fyrir fjölskyldufaðirinn að æða inn á stúlkuna þegar hún var háttuð um kvöldið og komin upp í rúm. Stúlkunni brá mjög þegar hann kom inn og settist á rúmið hennar.  Hann byrjaði strax að strjúka henni og fór innan undir sængina með hendina.  Stúlkan hljóðaði upp en hann sagði æstur " láttu ekki svona, þú vilt þetta"!  Þá fór stúlkan að gráta og þá var eins og hann áttaði sig.  Stóð upp og fór út úr herberginu. 

Stúlkan titraði öll og skalf og henni kom ekki dúr á auga um nóttina. Daginn eftir fór fjölskyldufaðirinn til Finnlands á ráðstefnu og vinkona hjónanna kom inn á heimilið til að vera hjá börnunum þar til hjónin kæmu heim aftur. 
Þessi kona var góður heimilisvinur og stúlkan farin að kannast vel við hana. 

Stúlkan fann
að hún þurfti að létta á sér og ákvað að segja konunni frá því sem gerðist.  Sem og hún gerði. Konan tók utan um stúlkuna, var mjög góð og skilningsrík en líka mjög undrandi á því sem hafði gerst.

Hún sagði að það væri best að hún sjálf segði húsfrúnni  frá þessu og á meðan ætti stúlkan að fara til ættingja sinna sem bjuggu í smábæ ekki svo langt frá. 
Húsfrúin  átti að koma heim daginn eftir á undan manninum sínum og þá ætlaði vinkonan að segja henni frá  þessu öllu saman.
Stúlkan samþykkti þetta enda fannst henni að konan ætti að fá að vita allt hvað gerðist.

Stúlkan ákvað að fara strax til ættingja sinna og gista hjá þeim um nóttina því henni leið ekki vel inn á heimilinu. Hún heyrði ekkert frá húsfrúnni fyrr en um kvöldið næsta dag.  Þá hringdi húsfrúin í hana og sagði hálfklökk í símann að henni liði mjög illa yfir þessu. Henni leið illa yfir framkomu mannsins við stúlkuna og henni leið illa yfir að hjónabandinu væri nú líklega lokið. 

Hún sagðist vera búin að tala við manninn sinn, hann hefði byrjað á því að
neita þessu en síðan brotnað saman, farið að gráta og sagt að hann hefði ekki ætlað að gera neitt, en þetta hefði gerst. Konan sagði í annarri hvorri setningu - aumingja stúlkan mín, aumingja stúlkan mín. 

Hún bað stúlkuna um að biðja ættingjana um að leyfa henni að vera í nokkra daga, hún ætlaði að ræða betur við manninn sinn.
Eftir tvo daga hafði hún samband aftur við stúlkuna og bað hana um að koma og ræða við þau hjónin. Stúlkan hræddist manninn ofsalega, var hrædd við viðbrögð hans og hvernig hann myndi koma fram við sig.  En hún fór til að tala við hjónin. 

Maðurinn horfði næstum í gegnum stúlkuna með hroka, en sagði ekkert.  Konan talaði fyrir þeirra hönd.  Hún sagði að manninum sínum þætti þetta mjög leitt og hún vildi að stúlkan yrði áfram hjá þeim í vinnu því börnunum líkaði svo vel við hana.  Hún bauðst til að leiga fyrir stúlkuna íbúð í borginni og hún gæti þá komið á morgnanna og farið heim klukkan 17:00 á daginn. 

Stúlkan þakkaði
boðið en sagðist ekki geta unnið lengur hjá þeim.  Til þess liði sér of illa. Konan tók ekki vel í það og sagði með hálfgerðum þjósti að það væri þá best að hún flytti strax út. Allt í einu var eins og konan tæki málstað mannsins síns og stúlkunni leið eins og þetta væri allt sér að kenna. 

Hún var bara sautján ára og hafði lent í þessu á þeim tveimur stöðum sem hún hafði unnið sem aupair.  Þetta hlyti að vera allt saman henni sjálfri að kenna.
 Ættingjar hennar tóku henni vel og leyfðu henni að vera á meðan hún leitaði sér að vinnu og herbergi í borginni.

  Hún hafði samband við konuna til að biðja um launin sín en fékk ekkert nema hroka og leiðindi. Konan sagði að símareikningurinn hefði verið svo hár að hann dekkaði launin hennar. Stúlkan lauk samtalinu grátandi. Hún hafði hringt nokkrum sinnum heim til Íslands að tala við foreldra
sína eftir að maðurinn reyndi við hana og eflaust var símareikningurinn hár, hún gat skilið það en henni fannst hún ekki eiga það skilið að launin yrðu tekin af henni.


Sem betur fer fékk stúlkan fljótt vinnu við skúringar á hóteli og einnig fékk hún á leigu ágætis herbergi í stúdentagörðum með sameiginlegu eldhúsi og stofu. 
Hún var í Svíþjóð í þrjá mánuði til viðbótar en þá ákvað hún að tími væri kominn til að halda heim til Íslands.


Það sem upp
kom í þessari ferð lá þungt á henni í langan tíma á eftir.  Hún skyldi ekki hvernig það gat komið fyrir á báðum heimilunum að fjölskyldufeðurnir reyndu að fá hana til við sig.  Henni fannst lengi  vel að þetta væri allt henni sjálfri að kenna.  Ýmsir höfðu líka gefið það í skyn við hana.  Og það var bara til að bæta olíu á eldinn.  Það hefði verið það besta fyrir stúlkuna að ræða við samtök eins og Stígamót, en þau voru ekki til á þessum tíma.

Ég veit ekki afhverju mér datt í hug að skrifa þessa frásögn og setja hana á bloggið mitt en ég trúi því að allt hafi sinn tilgang.  Ef glöggir lesendur hafa ekki áttað sig á því , þá er þessi stúlka að sjálfsögðu ég sjálf.

Takk fyrir lesturinn

Ester. 


 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Finn til samkenndar með þér elsku stelpan.  Hreint ömurleg lífsreynsla en því miður alltof algeng.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.7.2007 kl. 22:07

2 Smámynd: Ester Júlía

Takk elskurnar mínar, mér þykir vænt um þetta.  Hélt annars að enginn nennti að lesa þessa lönguvitleysu

Já ég held nefnilega að þetta sé miklu algengara en mann grunar.  Og stelpur þegja yfir því.  Alla vega kaus ég að gera það á sínum tíma.  Enda var þetta "mér að kenna" eða þannig !   

Ester Júlía, 13.7.2007 kl. 23:23

3 identicon

Mér þykir hræðilegt að heyra af þessari lífsreynslu þinni í Svíþjóð. Í gegnum þann stutta tíma sem maður hefur þekkt þig hér, þá datt manni ekki í hug að svona gæti legið að baki þinni reynslu. Lífsglöð, kát og hress og svo næs alltaf ... en við virðumst jú öll eiga okkar döpru stundir og erfið leyndarmál.

Hrikalegra er að hugsa til þess að þetta geti verið algengara en mann grunar, því aupair er eitthvað sem maður hélt að væri svo spennandi. Með tvær fósturdætur á leiðinni til mín, 10 og 12 ára, þá fer maður líka að finna fyrir sterkari kippum í hjartað, og verður "passasamari".

Takk fyrir þessar frásagnir. Þú ert hetja, og ég finn til með þér. Knús og kossar í tonnatali frá Akureyri!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 02:57

4 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

 Nauðsynleg og flott frásögn. Ég er sammála Dodda um að þú ert hetja...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 14.7.2007 kl. 09:35

5 Smámynd: Ester Júlía

Doddi , maður sér nefnilega yfirleitt ekki á fólki hvað það er búið að upplifa. (Ég á fullt af fleiri sögum í fórum mínum og sumar eru varla prenthæfar .)  Já þetta átti að verða svo skemmtilegt en ég var reynslunni ríkari eftir þessa ferð.  Það er reynslan  sem býr til karakterinn ..ekki satt?   Og  takk strákar fyrir þessi fallegu orð..

Knús og kossar til ykkar!    

Ester Júlía, 14.7.2007 kl. 12:26

6 Smámynd: Solla Guðjóns

Jú ástin mín ég var búin að átta mig á að þetta væri þín reynsla eða að þú værir að birta orðrétta grein eftir aðra.

Mikið er það rétt hjá þér að það sést ekki utanfrá hvaða reynslu við höfum og ég dáist að kjark þínum að skrifa um þetta og vonandi hefur það verið léttir.

Vissulega er það reynslan sem býr til karakterinn en það eru ekki allir að höndla sína reynslu og getur haft mjög slæm áhrif.

Guð sé lof að þú uppgötvaðir að sökin var ekki þín.

Mér hrís hugur við að hugsa að unglingsstúlkur eru að lenda í svona aðstæðum hvað eftir annað.

Risa faðmlag til þín sem ert eins og strákarnir segja HETJA.

Solla Guðjóns, 14.7.2007 kl. 13:06

7 Smámynd: mongoqueen

Knús til þín

Ég held að þetta sé ansi algengt....þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég heyri af svona.....því miður.

mongoqueen, 15.7.2007 kl. 21:35

8 Smámynd: Lovísa

Þetta er frábært hjá þér að tala um þetta. En alltaf hrikalaegt að heyra um svona.

En það er rétt að maður mótast af reynslunni og það er það sem gerir mann að þeirri manneskju sem maður er.

Knús frá mér. 

Lovísa , 20.7.2007 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband