Miðvikudagur, 29. ágúst 2007
Stórir hundar geta ráðist á litla hunda
Ég á sjálf hvolp af Papillonkyni. Hann er fimm og hálfsmánaða og hugaður með eindæmum því ég ákvað það strax að vera mikið með hann innan um aðra hunda og hlífa honum ekki við útiveru - göngutúrum og lausagöngu þar sem má hafa hunda lausa. Hundurinn minn er því enginn "kjölturakki." Ég er nefnilega sjálf mikið fyrir stóra hunda, hef átt Schäfer hund og langar í Rottweiler en ákvað að fá mér frekar lítinn hund sem hentar mínum aðstæðum í dag.
Litli hvolpurinn minn hræðist ekki stóra hunda og finnst þeir mjög spennandi. Og stórum hundum finnst hann spennandi. Sumir ráða sér ekki í leik og átta sig ekki á því að með því að skella litla niður og hamast á honum geta þeir hreinlega stórslasað hann og jafnvel drepið. Oft koma stórir hundar á fleygiferð að litla og ætla gjörsamlega að éta hann.
Ég hef því alltaf varann á og ef ég er á svæði þar sem má hafa lausa hunda þá fylgist ég vel með honum og er fljót að setja tauminn á hann ef ég sé lausa stóra hunda nálgast. Þá get ég gripið hann í fangið ef það er hætta á ferðum. Lenti síðast í því á sunnudaginn var að þurfa að grípa hvolpinn í fangið til að verja hann fyrir stórum boxer sem gjörsamlega ætlaði í hann.
Aldraða konan sem um ræðir í þessari frétt var að vinna í garðinum sínum með hundinn sinn bundinn rétt hjá sér. Þá æðir að stærri hundur og ræðst á litla bundna hundinn. Eigandi stærri hundsins var skiljanlega miður sín eftir þetta atvik og hugsar sig líklega tvisvar um áður en hann í framtíðinni ákveður að hafa hundinn lausan í íbúðarhverfi.
Ég skil það vel að það er freistandi að hafa hundinn sinn lausann við hlið sér í göngutúrunum. En svona lagað getur alltaf komið fyrir. Hundurinn sér eitthvað sem honum þykir mjög spennandi og tekur á rás. Í þessu tilfelli lítill hundur sem gat enga björg sér veitt.
Sýnum tillit og höfum hundana í taumi þar sem bannað er að hafa hundana lausa. Nóg er af stöðunum þar sem má hafa hundana lausa - þarf kannski að keyra aðeins útfyrir borgarmörkin til að finna góðan stað en það er örugglega þess virði.
![]() |
Eigandinn beinbrotnaði og tvísýnt um líf hundsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |