Fimmtudagur, 20. desember 2007
Sonur minn er með lungnabólgu
Elsti sonur minn hann Danni er með lungnabólgu. Hann var búin að vera með mjög þungan hósta í nokkra daga en aldrei datt mér þó í hug lungnabólga. Tungan bólgnaði upp fyrir 3-4 dögum síðan , og Danna var mjög illt í henni, átti m.a. erfitt með að tala. Mér datt í hug streptokokkasýking og sagði honum að drífa sig til læknis.
Þar sem hann var að fara til Evu kærustunnar sinnar sem býr á Akranesi fór hann til læknis þar. Læknirinn var pólskur og greindi hún hann með lungnabólgu við hlustun. Daginn eftir fór hann í röngenmyndatöku og tekið var blóðsýni og sett í rannsókn. Hann heyrði svo ekkert í lækninum daginn eftir en hringdi sjálfur í gær og fékk að tala við pólska lækninn sem hann átti í verulegum vandræðum með að skilja. Hann skildi þó að það væri sýking í blóðinu en læknirinn var ekki búin að sjá niðurstöðurnar úr myndatökunni.
Hvurslags eiginlega læknir er þetta? Íslenskur eða pólskur skiptir ekki máli en drengurinn er sárlasin, með stokkbólgna tungu , á í erfiðleikum með að tala, getur ekki borðað, það hryglir í lungunum á honum, hann er með hita og læknirinn er EKKI BÚIN AÐ ATHUGA NIÐURSTÖÐUR ÚR LUNGNAMYNDINNI! Sem móðir er ég hneyksluð og reið á þessum vinnubrögðum!
Danni kom frá AKranesi í kvöld og ég hringdi á bráðamóttökuna og fékk að tala við hjúkrunarfræðing sem benti mér á að senda drenginn á slysadeildina í fossvogi því þar væru lungnasérfræðingarnir. Og þar er Danni núna í þessum skrifuðu orðum.
Ég fór að gúggla á netinu og eins og mín er von og vísa þegar ég fer að rannsaka sjúkdóma upp á eigin spýtur þá er ég núna stressuð því "heilahimnubólga" kom oftar en einu sinni upp í tengslum við sýkingu í blóði. Auðvitað mála ég skrattann á vegginn.
Læt vita um framgang mála þegar málin skýrast.
Góða nótt gott fólk.