Mánudagur, 15. október 2007
Róm - gamlar indælar konur með skuplur..en
Þá er ég komin heim frá Róm. Æðisleg ferð að sjálfsögðu - hvernig getur svona ferð verið annað en stórkostleg , ja fyrir utan smá seinkun á leiðinni út og tveggja tíma seinkun á leiðinni heim og eitthvað þannig smotterí. Í dag er ég þreytt en alsæl.
Ég upplifði Róm m.a. svona :
- Róm er skítug, en maður vennst því fljótt og hættir að taka eftir því,
- í Róm er mikil umferðarómenning
-Róm er heit þegar sólin sýnir sig
-Róm er blaut þegar rignir eldi og brennisteini ( sem gerði nokkuð oft)
-í Róm eru stórfenglegar byggingar
-Rómverjar eru upp til hópa kurteisir og gestrisnir
-í Róm eru bestu pizzur sem ég hef á ævi minni smakkað
-Í Róm er hægt að fá stórkostlegan mat
-Ísinn er góður í Róm
-Í Róm er gaman að rölta um og skoða mannlífið, já og byggingarnar.
==================================
Við röltum tvisvar niðrí bæ frá hótelinu en það voru fjórir kílómetrar. Lítið fannst okkur nú hugsað fyrir gangandi vegfarendur, sumstaðar voru engar gangstéttar og urðum við að klessa okkur upp við grindverk eða steinveggi þegar að bílarnir þutu framhjá. Stundum var það allsvakalegt! Enda mælti fararstjórinn ekki með að fólk færi gangandi niður í miðbæ. Við sáum nú samt heilmikið á því rölti, mannlífið í úthverfinu, flottar húsgagnabúðir sem maður sá ekki í miðbænum, rakarastofur, ítalskar mæður með börnin sofandi á handleggnum, litla hverfis-pizzastaði sem sem seldu mjög girnilegar bitapizzur ofl ofl.
Aldrei sáum við ítölsk hjón saman. Alltaf voru konurnar einar að versla með börnin. Kannski bara eðlilegt þar sem að við vorum þarna í miðri viku , mennirnir eflaust að vinna. Mikið var af gömlum konum röltandi um miðbæinn, oft með litla hunda með sér. Sáum sjaldan gamla menn á röltinu ef nokkurn tímann. Annað hvort voru þeir farnir yfir móðuna miklu, eða þá að þeir voru eitthversstaðar með félögunum - kannski á hverfisbarnum. Við létum okkur alla vega detta það í hug.
Það kom okkur á óvart hvað lögggæslan í Róm er gífurlega mikil. Lögreglumenn á hverju horni og eins hermenn , alla vega voru þetta menn klæddir í eins og merkta búninga, svo voru þeir allir með byssur og sumir með vélbyssur. Stóðu oftast í kringum stórar byggingar. Oft mætti maður langri bílaröð, allt svartir benzbílar og þá voru "hermennirnir" á vappi í kring. Mjög spes.
Við fórum ekki í neinar ferðir á vegum ferðaskrifstofunnar enda erum við meira fyrir að upplifa hlutina ein og viljum ráða tíma okkar sjálf. Vorum mætt í morgunmatinn um níuleytið á hverjum morgni, og fórum þá niður í miðbæ. Horfðum, skoðuðum, settumst á kaffihús, veitingastaði, og gengum á okkur blöðrur. Endalaust hægt að skoða í Róm, endlaust hægt að labba.
Róm er dýr borg. Þarna er hátískan, hrikalega flott föt en dýr. Meira að segja Zara sem þykir nú ódýr búð var ekkert svo ódýr í Róm. Við keyptum því nánast ekki neitt, eyddum frekar pening í góðan mat og gott rauðvín.
Fórum inn í litla búð eitt kvöldið, þar sem voru tvær eldgamlar ítalskar konur að vinna, alveg ofsalega indælar. Þær voru með svona skuplur um höfuðið , mjög krumpaðar i framan í sætum kjólum og vinalegar. Við keyptum ekki mikið , einn ost, eina rauðvín, súkkulaði, 2. vatnsflösku, hráskinkupakka, eitthvað svona smotterí. Önnur gamla konan setti vörurnar í poka og byrjaði svo að reikna - í huganum! Eftir um það bil mínútu nefndi hún svo verðið , sem var ALLT of hátt fyrir það sem við keyptum, 35 evrur! Það þurfti engan fjármálaspeking til að sjá að þarna var verið að svindla á okkur. En hvernig á maður að fara að því að rífast við brosandi tannlausa indæla og vinalega gamla konu um verðið? 1-2000 kall til eða frá , við borguðum brosandi og fengum tannlaust geislandi bros til baka.
Ég set inn myndir fljótlega, tók helling af myndum í ferðinni. Eigið góðan dag kæra fólk
Athugasemdir
Velkomin heim
Einar Bragi Bragason., 15.10.2007 kl. 09:19
Það verður gaman að sjá myndirnar... tókuð þið mynd af gömlu konunni?
Gunnar Helgi Eysteinsson, 15.10.2007 kl. 09:22
OOhh næs færsla, sé alveg fyrir mér þá tannlausu, krumpuðu
Sigrún Friðriksdóttir, 15.10.2007 kl. 10:33
Velkomin heim. Ég hlakka til að sjá myndir. Ég er eins og þú, vil heldur upplifa land og þjóð upp á eigin spýtur. Maður kemst næst fólkinu og kynnist þjóðinni betur og öðruvísi. Frásögnin er einkar lifandi hjá þér. Gaman að þessu með skuplukonurnar
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.10.2007 kl. 10:46
Hæ sæta...
Rakst á síðuna þína hjá henni Dúu. En hugguleg ferð... ég hlakka til að sjá myndir. Róm er draumastaðurinn minn líka... og til hamingju með karlinn. Sjáumst í ræktinni. Kveðja Gulla
Gulla (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 12:12
velkominn heim er að hugsa um að fara á þessar slóðir næsta sumar..
Ólafur fannberg, 15.10.2007 kl. 14:01
Elsku bestasta Ester í heimi! Vertu velkomin heim og takk fyrir kommentið - takk fyrir ferðasöguna - og ég hlakka geðveikt mikið til að sjá myndirnar! Knús og kossar
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 17:44
Hææ!! Velkomin heim rómó Rómarfari..veit varla á kvað ég að kommenta þetta er allt svo skemmtilegt...en hérna gömlu smá-glæpa-krumpu-tannskertu kvinnurnar
Solla Guðjóns, 15.10.2007 kl. 17:45
Hæ gaman að fá þig aftur Ohh sé þessa tannlaus alveg fyrir mér..híhí...algjör dúlla Hlakka til að sjá myndirnar !!
Knús
Melanie Rose (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 19:09
Takk fyrir þetta elskan, þarna tókstu af mér ómakið; nú þarf ég ekki að fara til Rómar....
Heiða Þórðar, 16.10.2007 kl. 17:37
Það var ekkert Heiða mín - já rándýr fötin þarna..ekki ómaksins vert. . Gunnar - nei tókum því miður ekki mynd af gömlu konunum, það eru einmitt svona augnablik sem maður klikkar svo oft á, þetta væru skemmtilegustu myndirnar.
Já þessar tannlausu voru guðdómlegar, skemmtiatriði út af fyrir sig, ekkert að því að borga eins og 20 evrur aukalega bara fyrir að rekast á þær
Ester Júlía, 17.10.2007 kl. 07:48
Velkomin heim.
Kolla, 19.10.2007 kl. 20:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.