Föstudagur, 3. febrúar 2023
"Oj þetta er ógeðslegt" Íslendingar eru allstaðar, pass på!
Við seldum, gáfum eða hentum öllu okkar hafurtaski áður en við flúðum Ísland í júni á síðasta ári. Flótti eður ei ,liklega var það beggja blands,ævintýramennska og gífurleg þreyta á öllu baslinu. Fjölskyldan er sú sem ég sakna mest, það er aldrei auðvelt að skilja við fólkið sitt.
Ég elska landið mitt Ísland, fegurðina og allt sem landið gefur en það verður að segjast eins og er að það er ekkert sérlega auðvelt að lifa á Íslandi. Og fólki er ekki gert neitt sérlega auðvelt að lifa. Ég og minn maður höfðum talað um það að flytja erlendis í þó nokkurn tíma en ákvörðunin um að flytja var samt ekki tekin fyrr en rétt hálfu ári áður en við sigldum frá eyjunni fögru með Norrænu. Með bíl, kerru og hundinn okkar.
Svíþjóð varð fyrir valinu vegna þess að ég ólst upp í Svíþjóð og hef verið með annan fótin viðloðandi landið þar sem foreldrar mínir áttu íbúð í mörg ár í Svíþjóð sem þau notuðu mest á sumrin. Heimsóknirnar voru margar. Minn maður bjó einnig í Svíþjóð þegar hann var barn og tenging hans er mikil við landið því móðir hans býr þar en þó ekki á sama landssvæði og við fluttum til. Það er vinna að flytja erlendis, tekur óratíma að komast inn í kerfið og mikil skriffinska. Nú rúmum sjö mánuðum síðar erum við komin inn í það mesta en þó ekki alveg allt. Þetta verður auðveldara með tímanum og ég finn að búferlaflutningar eru mjög þroskandi. Þetta er jú meira en að segja það. Sérlega þegar maður er kominn yfir fimmtugt.
Það er urmull af íslendingum í Svíþjóð. Höfum samt ekki rekist á nema nokkra.
Nærtækasta dæmið er síðan í dag þegar minn maður var að ganga út úr verslun og heyrði þá á tal ungs pars á íslensku.
Ungi maðurinn:" Á ég að safna svona skeggi eins og maðurinn í köflóttu skyrtunni?
Unga konan : " Oj nei þetta er ógeðslegt"!!
Bloggar | Breytt 4.2.2023 kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)