Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Er eitthvað að gerast í Geldinganesi??

Hef sjaldan séð eins mikla umferð í hverfinu mínu eins og þegar að götuljósin voru slökkt í kvöld. Nema ef vera skyldi í umferðateppunni sem myndaðist eftir tónleika Rogers Waters í Egilshöll snemma í sumar. Ég og minn maður fórum út að ganga í "myrvuninni" en bílaumferðin var slík að ljósin á bílunum skáru sífellt í augun og sjarminn fór af herlegheitunum.  Mikil umferð var út í Geldinganesið, og þegar maður horfði út í nesið voru bílljósin yfirgnæfandi.  Við mættum fólki sem spurði okkur hvort eitthvað væri að gerast á nesinu en ekki vissum við til þess. Allir hafa greinilega fengið sömu hugmyndina á sama tíma.  

Voðalega er fólk háð bílunum sínum. Er ekki hægt að leggja bílunum í hálftíma og fá sér göngutúr í ró og friði í skugga götuljósanna. Og ekki var að sjá þegar maður horfði yfir borgina að það hefði verið slökkt á eitthverjum ljósum.  Mikil ljósadýrð var yfir borginni og höfnin logaði í ljósum sem aldrei fyrr.   Hugmyndin er góð sem slík , tek ofan fyrir Andra Snæ, en þetta þyrfti bara að skipuleggja betur. 

Það var gaman að labba meðfram sjónum í niðamyrkri ..og sjá varla niður fyrir fæturnar á sér, það var sjarmi yfir því þótt urmull bílljósa hefði lýst manni mikið á göngunni.

Stórgóð hugmynd engu að síður.  

 


Geitungarnir eru í Árbæ

Ég fór í apótekið  í Árbæ áðan.  þar sem ég stend við búðarborðið, þá kemur fljúgandi þessi líka stóri geitungur inn um opnar dyrnar, tekur strikið fram hjá mér og flýgur bakvið hjá afgreiðslufólkinu.  Önnur afgreiðsludaman hryllir sig og setur upp skelfingasvip sem mér fannst ekki skrýtið miða við stærð kvikindisins.  Ég bjó í Hraunbæ í tvo ár fyrir nokkrum árum og ég veit að geitungarnir lifa góðu lífi í Árbænum.  Á sumrin brást ekki að kæmu inn um gluggann 10-15 stykki á dag, sérstaklega síðari hluta sumars eða í byrjun hausts þegar að aðeins var byrjað að kólna úti.

Ég bý í Grafarvoginum í dag og ég hef ekki séð einn einasta geitung þar sem ég bý þessi tvö og hálfa ár sem ég hef búið þar.  Skýringin á þessu held ég að hljóti að vera annarsvegar gróðraleysið í mínu hverfi og hinsvegar sá mikli gróður sem er í Árbæ.   Ég bjó einu sinni í miðbæ Reykjavíkur og þar er líka ótrúlega mikið af geitungum enda gamallt hverfi og mikið af gömlum háum trjám og gróðri.

Ég er mjög fegin þessu geitungaleysi, var stundum að fara á límingunum á göngutúrum mínum um árbæjarhverfið þegar að geitungarnir svifu í kringum mig og barnið mitt sem þá var bara nokkurra mánaða gamalt.  Nú þarf ég bara að berjast við kóngulær í garðinum en sætti mig vel við það.


Frí áskrift af Mogganum.

Fyrir nokkrum vikum var hringt í mig frá MBL eða einhver á þeirra vegum og mér boðin áskrift af Mogganum frítt í einn mánuð.  Þar sem blöðin hrannast upp hjá mér ..(Fréttablaðið, Blaðið, ásamt hrúgu af auglýsingapósti) og ég kemst yfirleitt ekki yfir að lesa þau, þá afþakkaði ég pent.  Þá var mér boðið að fá blaðið um helgar í fjórar vikur.  Ég hugsaði mig aðeins um og ákvað svo að þiggja það.  Fínt að fá nóg að lesa um helgar. 

Fyrstu helgina kom blaðið reyndar ekki, en ég hef fengið það síðustu þrjár helgar.  Ágætis tilbreyting, mér hefur alltaf þótt gaman af að lesa Moggan.  Í gær var svo hringt í mig aftur frá MBL og mér boðin áframhaldandi áskrift í mánuð á 50% gjaldi.  Ég er að drukkna í blöðum svo ég afþakkaði það.  Á samt eftir að sakna Moggans um helgar, góður með morgunkaffinu.

 

 

 


Gömul húsráð

Hafið þið prófað eitthvað af þessu ?  1. Við hálsbólgu og kvefi: Í soðið vatn, setja pressaðan hvítlauk, engifer og hunang, fínt að setja þetta á brúsa og drekka yfir daginn. 

2. Við stíflu í nefi, setja soðið vatn í bala, fara á grúfu með höfuðið yfir balann og handklæði yfir höfuðið (og balann) og anda að sér gufunni í 5-10 mín.

3. Til að lýsa hár: Kreista sítrónu í hárið og láta sólina þurrka hárið (ætli ljósabekkirnir dugi ekki)

4. Við eyrnabólgu: setja hvítlauk í grisju og setja grisjuna við hlustina í nokkrar mínútur

5. Við sólbruna : Hreina jógúrt á brunann

6. Við húðþurrk og hárþurrk: Oliviu Olia .

7. Til að verjast frosti: Júgursmyrsl á andlitið.

8. Þrútin augu : gúrkusneiðar á augun ..10-15 mín.

 

Ef þið munið eftir fleiri húsráðum, endilega skrifið í athugasemdir og ég mun bæta þeim hér inn :)

kv. Ester

 


Nálastungumeðferð - Ótrúlegt!!

Ég var að ræða við konu um daginn sem að sagði mér að hún hefði fegnið bót meina sinna í gegnum nálastungur.  - Vá, hugsaði ég, þetta þarf ég að prófa!  Sérstaklega datt mér eitt í hug sem plagar mig stórkostlega og læknar hafa ekki getað hjálpað mér með.  Svo ég hringdi í þennan tiltekna sjúkranuddara og nálastungusérfræðing sem ku vera einn sá besti á landinu með áratuga reynslu í farteskinu. 

Og viti menn, fékk tíma samdægurs þar sem einn hafði afboðað komu sína.  Dreif mig því til hans og þetta var lífsreynsla út af fyrir sig.  Mjög andleg reynsla sem byrjaði um leið og ég gekk inn á stofuna.  Reykelsislykt í loftinu og slakandi flaututónlist, mjög róandi andrúmsloft og ég fann að ég slakaði strax á þar sem ég sat á biðstofunni og flétti í blaði.

Eftir smá stund kom maðurinn og sagði mér að koma með sér.  Ég fylgdi honum inn í lítið herbergi þar sem hann sagði mér að leggjast upp á bekk og slaka á. Hann fór höndum yfir mig og talaði róandi til mín á meðan.  Spurði mig svo hinna ýmsu spurninga, m. a. í hvaða stjörnumerki ég væri og fl. og fl.  Það kom mér á óvart að hann spurði mig hvort eitthvað hefði gerst á árinu sem ég var 24 ára.   Ég rifjaði aðeins upp og komst að því að þá skildi ég við fyrrverandi manninn minn og stóð uppi sem einstæð móðir.  Maðurinn sagðist halda að það ár hefði lífsorka mín farið dvínandi.  Hann sagði ( eftir að hafa tekið púlsinn) að grunnorka mín væri mjög lág.   Og það þyrfti að koma jafnvægi á orkustöðvarnar.  Og svo útskýrði hann fyrir mér í hverju það væri fólgið.

Hann stakk svo fimm nálum í mig, hér og þar um líkamann. Og svo lá ég í tuttugu mín með nálarnar í mér og slakaði á.  Svo kom hann og tók nálarnar úr og sagði mér að fara yfir á magann og svo stakk hann nokkrum nálum í bakið á mér.  Og það var ekki mjög gott, hann sagði að vöðvarnir í bakinu á mér væru þykkir og þess vegna væri þetta svona vont. Lá svo í smátíma með nálarnar í bakinu.  (fann lengi vel fyrir verk eftir nálarnar í bakinu eftir að hann fjarlægði þær). 

Síðan tók hann nálarnar og sagði að ég gæti fundið fyrir þreytu eftir meðferðina.   Sem passaði alveg, ég fann fyrir dofa og þreytutilfinningu í ck. klukkutíma á eftir , mjög þægileg þreytueinkenni reyndar.  Var mjög afslöppuð.    Já ég fékk fótanudd líka, hann nuddaði fæturnar á mér fast, hef aldrei fengið svona sérstakt fótanudd áður, það var ekki þægilegt enda var hann að nudda eitthverja punkta og svæði sem voru viðkvæm. 

Og viti menn, það sem hrjáði mig og hefur hrjáð mig í mörg ár, lagaðist strax, og er ennþá í lagi. Það er svo stutt síðan ég fór til hans að ég ætla ekki alveg að fullyrða að þetta sé orðið gott en vá hvað þetta lítur vel út!  Á að mæta til hans fljótlega aftur í nálastungur þar sem hann sagði að hann teldi að ein meðferð væri ekki nóg. 

Ég er ennþá hamingjusöm með þessa meðferð og ef að þetta er varanlegt þá mun ég mæla með nálastungum fyrir alla sem hafa kennt sér meins eitthversstaðar og læknavísindin hafa ekki getað hjálpað til með.


Viðtalið við MAGNA og fl. í Kastljósi

Var að horfa á Kastljós þar sem m.a er  tekið viðtal við Magna, Jason, Tommy Lee, Dilönu, Toby og Lúkas. Og vá hvað ég er stolt af honum Magna okkar! Þau bera honum öll svo vel söguna, hann var "pabbinn" í hópnum, kunni allt, vissi allt, átti svör við öllu.  Það var alltaf leitað til hans ef eitthvað var að osfr.   Og viðtalið við Jason toppaði allt.  Hann vildi Magna í bandið, fannst þeir ná svo vel saman að öllu leyti. Jason er einmitt sá sem ég virti mest af "vitringunum" þremur, og það var gott að heyra þetta frá einmitt honum. 

Tommy Lee er nú bara barn sem vill ekki verða stór.. en mér finnst gaman að honum.  Hann er vinalegur en ég held að honum vanti smá ró í beinin.  Hann var spurður að því í viðtalinu hvort þeir myndu koma til Íslands og hann sagði ..já bjóðið okkur og við munum koma!   Sagðist hafa áhuga á því að koma til landsins en gat ekki alveg útskýrt hvað landið væri staðsett þegar hann var spurður að því:).  

Meira síðar..

kv. Ester


TIL HAMINGJU MAGNI!

Vökunæturnar búnar, úrslitin ljós!  Frábær árangur hjá Magna og íslensku þjóðinni:).   Það fór eins og margan grunaði að Lúkas myndi vinna þetta.  Þeir í hásætunum hafa aldrei leynt aðdáun sinni á honum.  Dilana í öðru sæti, já ég er þokkalega sátt við það.  Stelpan hefur gífurlega rödd og skemmtilega sviðsframkomu.  Hún dalaði reyndar um tíma , fólk fékk leið á henni ( eflaust eftir að hún fór yfir strikið í viðtalinu fræga) en hún náðí sér á strik aftur.  Toby í þriðja sæti...já hann hefur bætt sig endalaust frá byrjun..frábært hjá drengnum.  

Magni og húsbandið..........það vil ég sjá og mér skilst að ég fái ósk mína uppfyllta:)

Ég verð að viðurkenna að ég sofnaði yfir úrslitunum í nótt, enda ekki skrýtið, vaknaði klukkan 05:00 um morgunin til að fara í vinnu, og jafnvel eftir nokkra bolla af svörtu kaffi tókst mér ekki að halda mér vakandi. Vaknaði þó þegar að Magni var að kveðja og þakka fyrir sig.

 Kær kveðja

Ester 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband