Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006

"FLUGSLYSIÐ MIKLA" - nú gerist það!

Ég er að fara til Spánar eftir nokkra daga. Við fjölskyldan.  Ég er flughrædd með eindæmum og býst alltaf við að hvert flug verði mitt síðasta.  NÚNA gerist það, FLUGSLYSIÐ MIKLA! Ég er samt að reyna að hugsa ekkert um flugið, óþarfi að magna upp hræðsluna. Eða hvað? Ég hef líka áhyggjur af ýmsu öðru sem getur valdið ótímabærum dauða fjölskyldunnar.  Las frétt um daginn um móskítóflugur sem bera í sér banvæna veiru..þessar móskítóflugur eru á Indlandi..ég sé vel fyrir mér að nokkrar hafi slæðst með moskítóflugunum á Spáni og við fjölskyldan séum í bráðri lífshættu. 

Eins með fjarstýrðar eldflaugar bandaríkjamanna og Kóreu...eða var það ekki annars Kóreu..(?) ..þeim verður skotið upp á leið minni til spánar og lenda í árekstri við flugvélina MÍNA.

Og ekki orð um það meir;)

 

 


Það má ekki gleymast að þakka fyrir ..

....allt það góða.      Ég er að verða fertug á þessu ári.  Furðulegt!   Þegar ég var unglingur ætlaði ég ekki að verða gömul..því þá fannst mér fertugir vera gamlir.  Mikið vantaði upp á þroskan hjá manni þá. Því með árunum fær maður meira sjálfstraust og þar af leiðandi meiri vellíðan.  Maður skilur sjálfan sig og aðra betur.  Eirðarleysið hverfur og maður verður sáttari með sjálfan sig. Mér finnst ég ekki vera gömul heldur þvert á móti líður mér eins og unglambi ...þroskuðu unglambi.

Ég er líka heppin að vera hraust og heilbrigð, það eru ekki allir svo heppnir. Ég er heppin að eiga yndislega foreldra, yndisleg börn og yndislegan mann. 

Ég er þakklát fyrir svo margt og læt það bara flakka ..þó einhverjir muni kalla mig væmna :).


Yndislega kona

Hugsið ykkur lítið stúlkubarn.  Stúlka sem þriggja ára gömul fór í pössun til eldra fólks þegar foreldrar hennar fóru í siglingu út í heim.  Eldri hjónin heilluðust svo að barninu  og barnið að þeim og það varð úr að þau tóku það  alveg að sér.  Litla stúlkan var hvers manns hugljúfi , hreint yndislegt barn og falleg var hún líka. Gekk vel í skóla, var hlýðin , prúð og góð við bæði menn og dýr. 

Alltaf var hún til takst fyrir aðra, vildi öllum vel og hugsaði minnst um sjálfa sig.  Þegar að gamli maðurinn dó eftir erfið veikindi, þá var hún til takst fyrir gömlu konuna, launaði henni vel uppeldið og gerði allt sem hún gat fyrir hana.  Gamla konan veiktist og stúlkan sem þá var orðin kona og átti nú sitt eigið heimili og þrjú börn,  hugsaði vel um hana, mataði hana og hjúkraði,  verslaði og hugsaði um heimilið hennar. Enga átti gamla konan ættingja...en annað kom þó í ljós þegar að hún lést , þá skutu upp kollinum löngu horfnir ættingar sem þyrstu í eigur gömlu konunnar sem þó voru ekki miklar.  Uppeldisdóttirin sem syrgði gömlu konuna eins og sína eigin móður, sá um jarðaförina og erfidrykkjuna. Merkilegt var að stór rotta tók á móti fólkinu á tröppunum heima hjá umræddri konu á leið í erfidrykkjuna  og má vel segja að það hafi verið  tákn um þá erfiðu tíma sem fylgdu í kjölfarið. 

Rifrildi fjarskyldu ættingjana um málverk, skartgripi og fleiri eigur sem gamla konan hafði átt, heimili hennar var innsiglað að beiðni ættingjanna, svo engin ( uppeldisdóttirin m. a. ) sem lykla hafði að íbúð gömlu konunnar, gæti gengið þar inn, ofl. ofl.  En þetta stóð uppeldisdóttirin allt af sér...þó svo að þetta hafi tekið mjög á hana andlega og að hún missti persónulegar eigur sem henni þótti vænt um.  En þetta leið allt hjá.  Alla tíð síðan, hefur þessi kona hugsað um leiði gömlu konunnar og gamla mannsins sem ólu hana upp.  Hún og engin annar.  Peningar skipta engu þegar að kærleikur er annars vegar.  

Hún hefur lifað erfiða tíma en þessi kona hefur skapgerð sem flestir myndu öfunda hana af..hún hefur farið í gegnum lífið af bjartsýni og jákvæðni svo allt virðist leika í höndunum á henni.  Hún setur ekki fyrir sér erfiðleika heldur horfir alltaf fram á við á lausnina.  

Hún hefur líka átt yndislega tíma, reyndar má segja að hún hafi átt dásamlegt líf og má í raun segja að það sé mikið til  hennar ljúfu skapgerðareiginleikum að þakka.

Hún á góðan yndislegan mann,  heilbrigð börn , fallegt heimili og nú mun líf þessara konu og fjölskyldu hennar breytast enn til batnaðar þar sem að viss atburður sem beðið hefur verið eftir mjög lengi var að sigla í höfn.  Og mikið innilega á þessi kona allt það besta skilið ..og uni ég engum þess betur.

Þessi yndislega kona er móðir mín.  

 


Veikindi :(

Nú fór æfingakerfið mitt allt í klessu þar sem ég er eitthvað lasin.  Fékk þyngsli yfir höfuðið á föstudaginn og niður í hnakkann sem varð stífur.  Svo svimaði mig og ég svitnaði heil ósköp.   Varð að fara heim úr vinnunni því ekki gat ég unnið svona.  Hef ekki orðið veik í allan vetur svo þetta kom á óvart.  Á laugardaginn leit ég í spegil nývöknuð og brá heldur betur ....ég var stokkbólgin og rauð undir augunum...heldur betur ósjáleg!

  Líkaminn var voða slappur, gat varla haldið á Olla mínum...þannig að eitthvað er í gangi ..er mest fúl yfir því að ég get ekkert æft á meðan ég er svona :(.  Er að reyna að taka því rólega í dag svo ég geti nú mætt í vinnu á morgun.   

Helgi fór með alla strákana í sund í Hveragerði ( nema Danna auðvitað sem er held ég á Akureyri).     Þannig að ég er ein heima í dag.  Ætla að taka því rólega og hugsa um heilsuna.   Þar til næst ...  

Ester. 


Einfölduð næringafræði.

Fæðupýramídinn

Orkuefnin skiptast í kolvetni, prótein, fitu og alkohol.  

Kolvetni:    Líta má svo á að kolvetni séu bensín vöðvana.  Einnig stjórnast starfsemi heila og taugakerfis af kolvetnum. Við verðum því orkulaus og einbeitingalaus ef við fáum ekki næg kolvetni.  Kolvetnisríkar fæðutegundir eru : kartöflur, hrísgrjón, pasta, brauð, kornmeti, grænmeti og ávextir.

Prótein:    Það er byggingarefni vöðva og efnasambanda í líkamanum. Við notum ( eigum að nota) prótein til uppbyggingar líkamans en ekki sem orkugjafa.  Próteinþörf einstaklinga í mismunandi en þeir sem stunda almenna líkamsrækt ættu að neyta um 1,2 g af próteinum á hvert kg. líkamsþyngdar.  Bestu próteinin koma úr dýraríkinu, þ.e. úr : fiski, kjöti, eggjum, (takmarka eggjarauður) og mjólkurafurðum.

Fita:    Hún er nauðsynleg líkamsstarfseminni en þó ætti að halda magninu undir 25-30% af heildarorkunni.  Fita fer beint í fitufrumurnar ef hún er ekki notuð sem orkugjafi, á meðan umbreyta þarf umfram kolvetnum og próteinum í fitu ef þau eru ekki notuð sem orkugjafi eða til uppbyggingar. Það er því mjög auðvelt að fitna af fitu þar sem hún er einnig meira en helmingi orkuríkari en prótein og kolvetni.    Forðist metta fitu (hörð fita) en það er öll dýrafita og einnig sum fita sem notuð er í matvælaiðnað, td. bakstur á kexi og kökum.     Jurtaolíur, td. Olífu, Raps, ISIO-4 og fleiri eru mun hollari fyrir hjarta og æðakerfi. Þessar jurtaolíur eru ómettaðar (fljótandi við stofuhita) og innihalda ekkert kólestról. 

Kolvetni innihalda aðeins 4 hitaeiningar per gram, meðan fita inniheldur 9. hitaeiningar per gram.

Heimild : World Class

Vonandi höfðuð þið gagn og gaman af :).  


Hvað brennum við miklu við hinar ýmsu athafnir:

Svefn Þú brennir 65 hitaeiningum á klst við svefn
Ganga Þú brennir allt að 250 hitaeiningum á klst við göngu
Hjóla Þú brennir meira en 300 hitaeiningum á klst við það að hjóla
Skokk Þú brennir allt að 400 hitaeiningum við skokk 
Sund Þú brennir meira en 500 hitaeiningum á klst við það að synda
Skvass Þú brennir 650 hitaeiningum á klst við að spila skvass
Lyftingar Þú brennir allt frá 500-800 hitaeiningum á klst við lyftingar

Tekið af www.protein.is.

 Fríða Rún næringafræðingur fitumældi mig í fyrradag.  Það kom mér heldur betur á óvart að eftir að ég byrjaði á þyngingarprógramminu og góðu mataræði , hef ég þyngst um 2 kg! Og það eru bara þrjár vikur síðan ég byrjaði í prógramminu.  Jahérna. Enda er ég farin að finna mun á fötunum mínum.  Gallabuxur orðnar of þröngar og ég veit ekki hvað og hvað.  Öfugt við mjög marga er ég bara nokkuð ánægð með það :D.  Ekki er þetta fita, það er eitt sem víst er.  

Fituprósentan var 18,4 % sem mér finnst nú heldur mikið, en hún mun að sjálfsögðu fara lækkandi.  'Eg hef verið að lyfta nánast á hverjum degi, ætla aðeins að slaka á í því og taka brennslu frekar á móti.  Held það sé of mikið fyrir mig að lyfta þungt prógram á hverjum degi.    En kviðvöðvarnir fá að finna fyrir því á hverjum degi, ég SKAL ná sixpakkinu!  

 

 

 


Siglt um sundin blá..

Fitness-keppandi

Áður en ég byrja þessa bloggfærslu, langar mig að taka það fram að myndin sem tengist færslunni er EKKI af mér :)). Laugardagur ..og ég vaknaði klukkan átta til að fara á æfingu. Haldið að það sé rugl :).  En ég er orðin háð æfingunum svona eins og fólk verður háð því að hlaupa. Ég mætti nú samt ekki fyrr en hálfellefu niðrí World Class..var svo værukær eitthvað.   Tók Brjóst og þríhöfða í dag ásamt 150 kviðæfingum.  Tek alltaf kviðæfingar eftir hverja æfingu og reyni að hafa þær fjölbreyttar.

 Þegar ég var í bekkpressunni að hvíla og var að fara að byrja á fjórða og síðasta settinu , þá var ég kölluð upp í kallkerfinu.  Ég rölti mér fram í afgreiðslu og haldið ekki að hún Sara mín kæra vinkona hafi staðið þar með fangið fullt af nammi!  Hún er nýkomin frá London og keypti handa mér nammi í fríhöfninni þessi elska.  Þetta verður að sjálfsögðu laugardagsnammið..ég er nefnilega algjör nammifíkill og verð að reyna að hemja mig og halda mig við laugardagana.  Ætla ekki að sleppa nammideginum, frekar að rugla aðeins líkaman ( sem fær sjokk þegar að óhollustan kemur eins og skrattinn úr sauðaleggnum, og setur þá vonandi brennsluna alveg á fullt :).  Ég held ég eigi inni einn sukkdag í viku, þar sem ég er rosalega dugleg í hollu mataræði, sex daga vikunnar.

Dagurinn í dag var mjög góður.  Við Olli litli skruppum niður í bæ, fórum í kolaportið, svo röltum við um á hafnarbakkanum, fórum og skoðuðum varðskip, það var gaman að fá að kíkja inn í það , fórum meira að segja niður í vélarsalinn.  

Síðan ákvað ég að kíkja einn rúnt með Sæbjörgunni, skipi  slysavarnarfélagsins. Keypti vöffu og appelsín um borð fyrir Olla og svo stóðum við uppi á þilfari á meðan Sæbjörgin sigldi um sundin blá.  Það var rosalega gaman og Olli skemmti sér ekkert smá vel.

Fórum upp í brúnna og Olli horfði út um gluggann hjá stýrimanninum og allt í einu segir hann " vá við erum alveg að koma til spánar" !  .....hahahahahahaha..ég sprakk úr hlátri og sá að fleiri áttu bágt með sig.   

Ætla Esjuna á morgun ef veður leyfir, annars verður brunað niður í Laugar :).  


Fitness-dagbók

pull_ups.jpg

Datt allt í einu í hug að það væri sniðugt að skrifa fitness-dagbók þar sem ég er byrjuð á fitnessprógrammi.   Ég stefni sem sagt á Fitness í haust.  Hef aldrei áður tekið þátt í því og það er ekki seinna að vænna þar sem ég er að verða fertug í haust.  Það er annað hvort að duga eða drepast ekki satt ;).   Arnar Grant sem er margfaldur íslandsmeistari í Fitness , var svo elskulegur að gera fyrir mig lyftingarprógram.  Einnig sendi hann mér upplýsingar um hvernig matseðillinn á að vera til þess að allt gangi upp.

Lyftingarprógrammið er fjórskipt.  Ég er búin að fara tvisvar yfir það , æfi sex daga vikunnar.  Tók strax á mataræðinu og fituprósentan hefur strax lækkað um 2 % skv. rafleiðnifitumælingartækinu (úff langt orð).  Ég finn að ég er að breytast, vigtin stendur í stað , er meira að segja nærri kíló þyngri sem er mjög eðlilegt þar sem ég er að taka miklar þyngdir og stækka vöðvana.  Vöðvar eru jú um helmingi þyngri en fita en þeir taka líka helmingi minna pláss.  

Tók æfingu í morgun fyrir axlir og Trappa ( vöðvar efst á baki, nálægt öxlum).  Æfingarnar taka alveg einn og  hálfan til tvo tíma  í hvert skipti.   Tek æfingu á morgun fyrir brjóst og þríhöfða, hvíli á laugardaginn og geng esjuna á sunnudag.   Nóg um þetta í bili :).


Þegar fólk stjórnar líðan minni

Mér hefur alltaf þótt gaman að skrifa. Jafnvel svo gaman að ég hef stundum haldið mig hafa hæfileika til þess.   En ég hef alltaf efast, og síðast í kvöld þegar ég las stórkostleg skrif vinar míns, sem bloggar á þessum vef.   Þetta er vinur sem er mér kær, jafnvel þótt við séum ekki lengur í neinu sambandi hvort við annað.  En hann skrifar hreint stórkostlega. Hrein unun að lesa það sem hann skrifar.  Og nú fer ég að verða væmin, svo ég ætla að fara yfir í annað. 

Ég tek allt of mikið inn á mig annað fólk.  Eða þs. það sem annað fólk segir eða gerir.  Mér hefur til dæmis ekki liðið of vel í dag og ástæðan er einmitt sú að vissar manneskjur stuða mig og "láta" mér líða illa.  Samt veit ég vel að það er nákvæmlega undir sjálfri mér komið hvort ég leyfi þessum manneskjum að stjórna mínum tilfinningum.  Þetta þarf ég að skoða vel og vandlega ef ég ætla mér ekki að  láta orð eða gerðir annarra stjórna lífi mínu.   Ég veit hvað ég þarf að gera til að mér líði betur og það ætla ég mér að gera.  Ég sný þessu við , mér í hag, og ég veit hvernig ég ætla að fara að því. 

Annars er alltaf gott að skrifa  um það sem býr manni í brjósti, það gefur góða líðan.  


Fékk far með Egó eftir ball ..

Bubbi flottastur

Ég hef alltaf verið leyndur aðdáandi Bubba.  Það verður að viðurkennast. Ég var nefnilega  að horfa á tónleikana og ég hreifst brjálæðislega með, fékk flashback þegar að Egó var að spila, fór í huganum á sveitaböllin á Hvoli og fleiri stöðum. Ég fékk einu sinni far með Egó eftir ball á Hvoli.  Það var mikil ævintýraferð, svo ekki sé meira sagt.  Þetta var á þeirra "dóptíma" og mér leið eins og Lísu í Undralandi á leiðinni.  En mér varð ekki meint af , komst heil á húfi heim :). Ég var bara sextán ára þarna.  

Mér þótti alltaf svo vænt um Þorleif bassaleikara.  Gaman að sjá hann þarna í kvöld.  Og gaman að sjá öll þessi "gömlu " brýni samankomin - Mike og Danna Pollock, Magga trommara ( hann er æði) og fl. 

 Já böllin með Egó voru ein kraftmestu böllin sem voru á þessum tíma.  Bubbi er ótrúlegur!  Hló mig máttlausa þegar að Jón Gnarr sagði " Og aldrei hefði mér dottið í hug að Bubbi myndi halda upp á fimmtugsafmæli sitt"  ..hehe. 

 Sé mest eftir að hafa ekki keypt miða  á tónleikana, það hefði verið toppurinn að vera þarna í kvöld  

INNILEGA TIL HAMINGJU MEÐ STÓRAFMÆLIÐ BUBBI - ÞÚ ERT FLOTTASTUR!   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband