Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Hrakfarir í Kristjanínu!

photo-00_jpeg.jpg

Þá eru komnar inn myndir af árshátíðinni og fleri myndir!  Það var semsagt ÆÐISLEGT í Köben.  Árshátíðin var þvílíkt vel heppnuð, mikið dansað og mikið stuð.  Á laugardaginn var geggjað veður og maður fór auðvitað á strikið eins og sannur íslendingur..eyddi einum og hálfum tíma inní H&M en mér til afsökunar, var það eina búðin sem ég fór í.   Um kvöldið var búið að panta borð fyrir 25 manns úr hópnum á ítölskum veitingastað á Bredegate..man ekkert hvað staðurinn heitir en það skiptir ekki öllu.  Geggjað gaman þar, æðislegur maturinn, mikið sungið og frábær stemning.  Þjónarnir voru frábærir, svo skemmtilegir og þarna var þvílíkt hæfileikaríkur barþjónn sem kastaði flöskum og glösum upp í loftið og greip svo fyrir aftan bak og ég veit ekki hvað!  Var eflaust á keppninni sem var hér á landi um síðustu helgi..kæmi mér alla vega ekki á óvart!

  Um tólfleytið kom eitthvað fát á mannskapinn, Hrafnhildur kominn með hausverk og það var pantaður leigubíll og ég, Hrafnhildur, Davíð og Eyjó fórum upp á hótel.  Ég dauðsá svo eftir því , af því mig langaði ekki að hætta djamminu svona snemma.  En í staðinn fyrir að fara aftur á staðinn, sat ég í lobbýinu til klukkan hálffjögur um nóttina.  Reyndar var alltaf að koma fólk að kjafta við svo það var ekki alleiðinlegt ..en samt..æ hefði frekar viljað vera á diskóteki að dansa!

Næsta morgun voru allir vaktir með símhringingu úr lobbýinu, nú átti að koma sér úr herberginu fyrir klukkan tíu.  Frekar skrýtin tímasetning fannst okkur en hlýddum að sjálfsögðu.  Klukkan var bara tíu og rútan átti ekki að koma fyrr en 19:30 að ná í liðið svo við ákváðum nokkrar að fara í Kristjaníu. 

Vá hvað sá staður var fríkaður.  Fílaði hann í botn!  En ég var ekki fyrr komin inn fyrr en hællinn datt undan skónum mínum ..ææ ..og ég fór í hálfgert fát!  Var bara með eina aðra skó upp á hóteli og það voru háhælaðir ballskór!  Bað hasshausinn í básnum þar sem ég var stödd að hjálpa mér og hann sagðist eiga lím...ég fór úr skónum og hann reyndi sitt besta við að líma hælinn á skóinn með tonnataki en allt kom fyrir ekki! Þá kom annar ljúflingur að og sagðist getað reddað mér.  Fór inn í kofa og kom aftur með risakassa af allskonar dóti.. hann gróf ofan í kassann í dálitla stund og kom svo með tvenna skó , aðra noname og hinir voru fínustu Pumaskór akkúrat í mínu númeri!

Gæinn vildi fá 300 kall danskar fyrir skóna en ég var ekki  með krónu á mér, bara kort.  Ég skakklappaðist hangandi utan í Sonju af stað og við hittum fljótlega stelpur úr worldclass, þar á meðal Bryndísi sem vinnur í afgreiðslunni og hún lánaði mér 200 kall.  Ég skakklappaðist til baka ( því það var erfitt að ganga á skóm bara með einum hæl) og bauð pumagæjanum 200 kall fyrir skóna.  Hann gerði sig frekar fýlulegan í framan og ég setti upp hvolpasvip og sagði "please, you must help me" og þá sagði hann ( á dönsku) " já já ef þú lofar að borga mér 100 kall þegar þú kemur aftur til Kristjaníu...og auðvitað samþykkti ég það, hvað annað :D.  Og hann gaf mér sokka í kaupbæti!

Æ þetta voru svo miklir ljúflingar þarna..allir svo djollý , meira að segja stóru hundarnir sem gengu lausir þarna um allt voru flaðrandi upp um okkur.  Ég hefði viljað eyða mikið lengri tíma í Kristjaníu en það var frekar kalt og maður var ekki alveg rétt stemmdur.  

Við Sonja gengum svo út úr Kristjaníu , spurðum til vegar niðrí miðbæ, því við vissum ekkert hvar við vorum í bænum.  Gengum svo í tuttugu mínútur og vorum allt í einum komnar að Café Norden á Strikinu!    Þetta var sem sagt ekki lengra frá.   Fengum okkur kaffi og röltum síðan um á Strikinu , kíktum í þær búðir sem voru opnar og höfuðm það bara kosý.   Ákváðum svo að kíkja á Outlett útsölur sem við vorum búnar að frétta af á eitthverri bryggju, tókum leigubíl ( enn einn) þangað.  Þetta voru allskonar búðir,  Noa Noa, Dísel, Levis, Benetton og fleiri.  En þarna vorum við dottnar úr öllu búðarstuði, vorum hvorugar í skapi  fyrir búðarráp svo við ákváðum að ganga heim á hótel .  

Þegar þangað var komið voru allir frekar þreyttir og pirraðir og flestir búnir að ákveða að taka leigubíl á Kastrup í staðinn fyrir að bíða eftir rútunni sem var ekki væntanleg  fyrr en eftir marga tíma.  Enda hafði fólk engan stað til að vera á , nema töskuherbergið sem við höfðum undir farangurinn.   Svo það var drifið sig út á völl , fínt að hafa rúman tíma í flugstöðinni, kíktum í búðir og fengum okkur að borða ..vorum svo komnar heim til íslands um ellefuleytið um kvöldið.

Frábær ferð í alla staði... setti inn þær myndir sem ég tók úr símanum mínum , þær eru betri en engar, set fleiri myndir inn seinna.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband